„Hæstiréttur dæmdi mig í fjögurra ára fangelsi í síðustu viku í svokölluðu Al Thani-máli. Sennilega er andrúmsloftið á Íslandi þannig að það gagnist mér ekkert að barma mér í fjölmiðlum yfir því dómsmorði sem ég tel að þar hafi verið framið. Ég verð samt að trúa því að sagan muni sjá um að þessi dómur fái verðug eftirmæli.“

Svona hefst grein Sigurðar Einarssonar, fyrrv. stjórnarformanns Kaupþings, sem hann ritar í Fréttablaðið í dag. Þar fer hann yfir „örfá grundvallaratriði“ sem hann kveðst eiga erfitt með að sætta sig við varðandi dóm Hæstaréttar, en sú greining sé þó ekki tæmandi.

Eitt eða tvö dómstig?

Sigurður byrjar á því að nefna að í dómi Hæstaréttar hafi lítið sem ekkert verið fjallað um héraðsdóminn. Í stað þess að endurskoða hann hafi Hæstiréttur komið með nýjan dóm með litla sem enga tengingu við héraðsdóminn sem var áfrýjað.

„Ég fæ ekki betur séð en að Hæstiréttur geri sér lítið fyrir og afnemi regluna um að í landinu séu tvö dómstig og komi í veg fyrir að ég geti áfrýjað niðurstöðu sem ég er ósáttur við,“ segir Sigurður.

Ákærður fyrir annað en dæmt var fyrir

Þá nefnir Sigurður að hann hafi verið ákærður fyrir umboðssvik en verið sýknaður í Hæstarétti af ákærunni. Þetta hafi hins vegar lítið hjálpað honum þar sem rétturinn hefði í staðinn dæmt hann fyrir annað; hlutdeild í umboðssvikum. Hann hafi þó ekki verið ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum og þess vegna ekki varist slíku broti, frekar en öðru sem hann var ekki ákærður fyrir.

„Mér er það ljóst að heimilt er að dæma þann sem ákærður er sem aðalmaður fyrir hlutdeild í brotinu enda verði vörnum ekki áfátt. Hvernig það geti átt við í mínu tilviki er mér óskiljanlegt þar sem Hæstiréttur virðist líta svo á að hlutdeild mín í brotinu hafi byggst á athafnaleysi,“ segir Sigurður í greininni.

Ekki vísað til sannana

„Mér hefur alltaf skilist að í sakamálum njóti sakborningar vafans og sekt verði að vera sönnuð til þess að sakfella megi mann. Þetta á ekki við í þessum dómi Hæstaréttar. Sama er hvað ég leita í dómnum, ég finn ekki að vísað sé til neinna sannana um mína sekt.“

Sigurður segir að Hæstiréttur kjósi að líta algerlega framhjá framburði þeirra vitna sem komu fyrir dóm sem öll hafi borið á sama veg um að aðkoma hans að málinu hafi verið engin. Rétturinn skauti framhjá þessu og vísi aðeins til vitnisburðar Hreiðars Más, sem hafi þó ekki verið spurður út í vitneskju Sigurðar um lán vegna kaupa hlutabréfanna heldur um annað lán sem hann hafi ekki verið ákærður fyrir.

Þá segir Sigurður að sér finnist meinbugir á dómi Hæstaréttar, en hann heyri fáa sem fjalli um dóminn á Íslandi velta þessum þáttum fyrir sér. Það finnist honum alvarlegt mál.

„Mér finnst umræðan sem fyrr einkennast af því að þessir menn, sem vissulega voru flestir bankamenn, eigi allt vont skilið,“ segir Sigurður að lokum.