Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir að dómurinn í al-Thani málinu í síðustu viku hafi verið sér mikil vonbrigði. Sigurður var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sakborningarnir fjórir í málinu hlutu allir þunga dóma og hafa jafnframt allir áfrýjað. Sigurður er sá fyrsti af sakborningunum sem tjáir sig opinberlega eftir dóminn.

„Ég verð að segja, að ég tel þetta sorglega viku fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, þar sem fjölmargt í efni dómsins og rökstuðningi hans er ekki sannleikanum samkvæmt. Lögmenn okkar munu vitaskuld benda rækilega á þetta í málflutningi fyrir Hæstarétti,“ segir Sigurður í bréfi til vina og vandamanna sem Pressan vísar í.

Sigurður segist leggja traust sitt á Hæstarétt sem muni eiga síðasta orðið. „Ég er sannfærður um að niðurstaða hans verði önnur en Héraðsdóms Reykjavíkur,“ segir hann. Hann segir að á meðan endanlegs dóms sé beðið í máli þessu verði þeir að búa við allskyns fullyrðingar frá ýmsu fólki, álitsgjöfum og fjölmiðlafólki, sem þekki lítið til málavöxtu.