Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra bankans, og Ármanni Þorvaldssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupthing Singer & Friedlander (KSF), banka Kaupþings í Bretlandi, er ekki heimilt að stýra fjármálafyrirtæki í Bretlandi fyrr en á næsta ári.

Þetta er ákvörðun breskra fjármálayfirvalda eftir rannsókn á falli KSF í október árið 2008. Niðurstöður rannsóknarinnar og ákvörðun yfirvalda var birt í dag. Þar eru fyrrverandi stjórnendur bankans m.a. gagnrýndir fyrir að hafa ekki hugað nægilega vel að lausafjárstöðu KSF í aðdraganda hrunsins.

Þá segir í niðurstöðum rannsóknar fjármálaeftirlitsins að þeir Sigurður, Hreiðar Már og Ármann hafi samþykkt kvaðir fjármálayfirvalda. Bannið gildir í fimm ár frá og með falli Kaupþings í október árið 2008. Samkvæmt því fellur það úr gildi í október á næsta ári.

Hér má sjá niðurstöðu FSA