Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur til að greiða 496,2 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum frá 20. ágúst 2010 vegna persónulegrar ábyrgðar á lánum sem hann fékk hjá bankanum til kaupa á hlutabréfum.

Rétt fyrir fall bankans var persónuleg ábyrgð starfsmanna Kaupþings sem höfðu fengið lánað hjá bankanum til hlutabréfakaupa verið felld niður. Slitastjórn Kaupþings rifti gjörningnum og hefur krafið þá fyrrverandi starfsmenn bankans um greiðslur persónulegrar ábyrgðar af lántökunni.

Sigurður hafði fengið 5,5 milljarða króna lán til hlutabréfakaupanna og á hann að greiða 10% af þeirri upphæð. Það jafngildir um 550 milljónum króna ásamt vöxtum og verðtryggingu.

Fordæmisgildi var fyrir dómi Héraðsdóms en í síðustu viku dæmdi Hæstiréttur að rifta skuldi niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar annars starfsmanns Kaupþings sem hafði fengið sambærileg lán og Sigurður.