Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, mætti einn við fyrirtöku í svokölluðu al-Thani-máli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi stjórnendum hjá Kaupþingi og kaupsýslumanninum Ólafi Ólafssyni, sem löngum hefur verið kenndur við Samskip. Hann var einn af umfangsmestu hluthöfum bankans fyrir hrun.

Sigurður lýsti sig saklausan af þeim ávirðingum sem á hann eru bornar í málinu, að því er fram kemur á fréttavef Vísis.

Fyrirtöku í málinu hefur verið frestað einu sinni þar sem enginn hinna ákærðu mættu fyrir dóminn.

Hinir ákærðu eru auk Sigurðar og Ólafs, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings-samstæðunnar, og Magnús Guðmundsson, bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg. Þeir eru allir ákærðir fyrir meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik. Brotin geta varðar allt að sex ára fangelsi. Vísir segir þrjú ár geta bæst við dóminn samkvæmt heimild í hegningarlögum.