Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, er að eigin sögn atvinnulaus og auralaus. Hann hefur nú selt húsið í vesturhluta London sem hann keypti með láni frá Kaupþingi nokkrum mánuðum áður en bankinn fór á hliðina í október árið 2008 og leigir nú með fjölskyldu sinni íbúð í norðurhluta borgarinnar. Kona Sigurðar er jafnframt atvinnulaus og lifa þau á sparnaði hennar. Sigurður á sjálfur einhvern lífeyri en má ekki ganga á hann þar sem hann er ekki kominn á aldur.

Þetta kemur fram í einlægu viðtali við Sigurð í sænska dagblaðinu Affärs världen .

Í viðtalinu fer Sigurður í löngu máli yfir ákærur embættis sérstaks saksóknara á hendur sér sem hann segir byggðar á sandi en forðast mikið að fjalla um aðdragandann að falli Kaupþings. Sigurður segist helst sjá eftir því að hafa ekki flutt höfuðstöðvar Kaupþings úr landi, að hafa keypt stóran hlut í fjármálafyrirtækinu Storebrand, að hafa ekki skipt bankanum upp í þrjá hluta og ekki gert upp í pundum og evrum í stað íslenskra króna.

Viðtalið er tekið þar sem útibú Kaupþings var eitt sinn í Svíþjóð en Álandsbanki er nú. Blaðamaður Affärs världen tekur sérstaklega fram að Sigurður vilji ekki láta taka af sér myndir.