Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, stendur í ströngu í dag, en fyrirtaka var í tveimur dómsmálum á hendur honum í Héraðdsómi Reykjavíkur í dag. Ekki er gert ráð fyrir því að Sigurður mæti fyrir dóm, enda er aðeins um fyrirtökur að ræða, en ef svo væri þyrfti hann ekki að fara langt, því þinghald í málunum tveimur er í sama þingsal.

Fyrra málið er riftunarmál Kaupþings á hendur Sigurði, en ekki er ljóst sem stendur hvaða gerningi það er sem Kaupþing vill rifta í þetta sinn. Í maí í fyrra rifti Héraðsdómur þeirri ákvörðun Kaupþings fyrir hrun að aflétta persónulegri ábyrgð starfsmanna Kaupþings, þar á meðal Sigurði, á lánum sem þeir höfðu notað til hlutabréfakaupa. Var Sigurður þá dæmdur til að greiða þrotabúinu 550 milljónir króna.

Síðara málið, sem tekið var fyrir í dag, er mál Dróma á hendur Sigurði auk þeirra Hreiðari Má Sigurðssyni, Ingólfi Helgasyni, Steingrími Kárasyni, Magnúsi Guðmundssyni og félögunum Hvítsstöðum ehf. og Langárfossi ehf. Vill dróm

Drómi hefur krafið stefndu um greiðslu á ríflega 900 milljóna króna skuld sem stofnað var til vegna jarðakaupa við Langá á Mýrum og er þar meðal annars að finna Langárfoss sem er ein verðmætasta laxveiðijörð landsins.

Ætlunin var að reisa á jörðunum sumarhús, en úr því varð aldrei. Mennirnir eru í persónulegri ábyrgð fyrir lánunum.