Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, mun fá að bera vitni við aðalmeðferð í bótamáli Frigusar II gegn Lindarhvoli ehf. og íslenska ríkinu í héraði.

Landsréttur féllst á kröfu Frigusar II um að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur yrði felldur úr gildi að því er varðaði synjun á kröfu félagsins um að Sigurður Þórðarson yrði leiddur fyrir dóm sem vitni. Ágreiningurinn kom upp við undirbúning aðalmeðferðar málsins í héraði.

Ágreiningurinn sneri að því hvort þeir Þór Hauksson fjárfestir, Valtýr Sigurðsson lögmaður og Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, sem Frigus vill að gefi skýslu sem vitni, uppfylli skilyrði sem slíkir. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur varð sú að Frigus væri heimilt að að boða þá Þór Hauksson og Valtý Sigurðsson sem vitni en ekki Sigurð Þórðarson.

Þá komst Héraðsdómur einnig að þeirri niðurstöðu að Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður ríkisins og Lindarhvols, myndi vera fyrstur í skýrslutöku á undan öðrum vitnum í málinu. Lögmaður Frigusar hefur sagt bagalegt að Steinar Þór sem lykilvitni og lykilleikmaður í málinu sé einnig lögmaður ríkisins og Lindarhvols.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 22. desember.