Sigurður Guðni Guðjónsson hæstaréttarlögmaður fann lítinn poka af kannabisefnum á göngu sinni með hundinum Atlasi nú í morgun.

„Fíkniefnaneysla eykst þrátt fyrir átakið fíkniefnalaust Ísland árið 2000. Í mínu ungdæmi var grasið ekki aðgengilegt öllum sem vildu, eins og reyndin virðist nú þegar það er komið í svona snyrtilegar neytendaumbúðir, eins og þær sem eru á myndinni. Atlas fann þetta í morgun við Árbæjarlaug. Við erum í vondum málum því muni ég rétt þá er varsla fíkniefna refsiverð. Hvað gera bændur þá,“ spyr Sigurður í stöðuuppfærslu á Facebook, þar sem hann birtir mynd af fundinum .

Sigurður skrifar svo aðra færslu þar sem hann birtir mynd af grein Kristins Inga Jónssonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, þess efnis að stríðið gegn fíkniefnum sé tapað. Veltir Sigurður því fyrir sér hvort fíkniefnafundurinn sanni efni greinarinnar.

Rusl í Reykjavík

Sigurður var í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út síðasta fimmtudag. Þar fjallaði hann meðal annars um það áhugamál sitt að bæta umgengi um land allt og beinir hann sjónum sínum daglega að því að halda Reykjavík hreinni.

Hann heldur úti síðunni Rusl í Reykjavík á Facebook sem er nú með hátt í sex þúsund læk. Þar setur hann inn daglega myndir af rusli sem hann sér á ferðum sínum um borgina. Forsaga málsins er sú að dóttir hans eignaðist hundinn Atlas, sem varð að lokum Sigurðar og í dag eru þeir miklir félagar.

„Mér fannst eitthvað svo tilgangslaust að fara bara út með hundinn á hverjum morgni til þess að láta hann gera stykki sín þannig að úr varð morgunganga. Á þessum morgungöngum fór ég að gefa umhverfinu meiri gaum og öllu því rusli sem sjá mátti á víðavangi. Ég fór að tína þetta upp í poka og henda í ruslatunnur. Mér datt í hug að það væri kannski gott að vekja athygli á sóðaskapnum svo ég setti nokkrar myndir á Facebook. Þannig byrjaði Rusl í Reykjavík. Á tveimur árum höfum við sett inn held ég 6000 myndir. Þetta hefur mælst ágætlega fyrir og gaman er að sjá að fleiri eru farnir að gera þetta líka,“ sagði Sigurður í viðtalinu.

Hann segir að það sé hægt að lesa merkilega sögu út úr ruslinu, hvernig veðrið hafi verið, eða hvort hafi verið partí um helgina. „Þetta er samfélagsleg stúdía okkar Atlasar.“