Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefur keypt um tíu prósenta hlut í fjölmiðlafyrirtækinu Pressunni. Um nýtt hlutafé er að ræða sem gefið er út vegna kaupa Pressunnar á stærstum hluta hlutafjár í DV ehf.

Aðrir eigendur eru Björn Ingi Hrafnsson, Arnar Ægisson og AB11 ehf. Í tilkynningu á vef Pressunnar kemur fram að fleiri aðilar séu væntanlegir í hluthafahóp Pressunnar á næstu dögum. Pressan ehf. er stærsti eigandi DV en á einnig vefmiðlana Pressuna, Eyjuna og Bleikt.

Sigurður G. Guðjónsson er fyrrum forstjóri Norðurljósa, sem rak meðal annars Bylgjuna og Stöð 2. Þá var hann einn stofnenda Blaðsins.

Mikil átök stóðu um eignarhald á DV í haust sem enduðu með yfirtöku Þorsteins Guðnasonar og fleiri fjárfesta. Nýir eigendur DV ehf. sögðu síðan Reyni Traustasyni, fyrrverandi ritstjóra, upp störfum. Sigurður G. Guðjónsson var fyrirferðarmikill í átökunum.