Hlutafé Frjálsrar fjölmiðlunar, sem á Pressuna, DV og fleiri fjölmiðla, var aukið um 30 milljónir króna skömmu fyrir áramót. Sigurður G. Guðjónsson segir félagið áfram vera að fullu í sinni eigu í gegnum hlutafélagið Dalsdal ehf.

Hlutaféð var 500 þúsund krónur fyrir hlutafjáraukninguna.

„Þú rekur ekki alvöru fjölmiðlafyrirtæki með 500 þúsund krónur í hlutafé,“ segir Sigurður og útilokar ekki að hlutaféð verði aukið enn frekar. Þá flytji Frjáls fjölmiðlun senn í nýtt húsnæði við Suðurlandsbraut.

Frjáls fjölmiðlun keypti fjölmiðlana af Pressunni ehf. í september, að mestu með lánsfé en Sigurður vill lítið segja um hvaða aðili eða aðilar hafi fjármagnað kaupin.