„Pálmi hefur skilað inn þremur yfirlýsingum. Það er því rangt hjá slitastjórn Glitnis að yfirlýsingu hafi ekki verið skilað inn. Slitastjórnin hefur bara aldrei sætt sig við þær.“ Þetta segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Pálma Haraldssonar, í samtali við Viðskiptablaðið. „Það hefur aldrei staðið á Pálma að undirgangast skilmála þessa skrítna dómara í New York, í þessum skrípadómstól í þessum skríparéttarhöldum.“

Sagt var frá því í gær að mál slitastjórnar Glitnis gegn sjö fyrrum eigendum og stjórnendum bankans verði tekið upp að nýju fyrir dómstólum í New York. Ástæðan var sögð sú að yfirlýsing frá Hannesi Smárasyni og Pálma Haraldssyni, þar sem samþykkt er að þeir undirgangist lögsögu hérlendis og að sá dómur verði aðfarahæfur í New York, hafi ekki borist.

Sigurður G. segir að það hafi engin heyrt af þeirri ákvörðun að málið yrði tekið upp að nýju, ekki lögfræðingar Pálma heldur. „Ég las fyrir þá fréttir fjölmiðla í gær og þeir sögðu þetta vera fréttir fyrir þá, þeir höfðu aldrei heyrt af þessu,“ segir Sigurður. Hann segir það ekki í höndum Árna Tómassonar, formanns skilanefndar Glitnis, eða Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnar, að taka ákvörðun um hvort málið verði tekið upp aftur.

Snýst um orðalag yfirlýsinga

Síðustu yfirlýsingu frá Pálma var skilað í gær. Tveimur öðrum var skilað þann 23. desember og í janúar, að sögn Sigurðar. „Þetta er einhver misskilningur hjá íslenskum fjölmiðlum sem láta mata sig af slitastjórninni og spyrja einskis. Slitastjórnin áfrýjaði málinu í New York. Dómarinn ætlaði að gefa út fyrirmæli um hvernig þessi yfirlýsing ætti að vera. Þau hafa aldrei komið.“

Sigurður segir það eina sem hafi komið frá dómaranum sé frávísun málsins. „Hann sagði að menn þyrftu að samþykkja að undirgangast lögsögu á Íslandi og að sá dómur yrði aðfarahæfur í New York. Samþykki hefur legið fyrir frá upphafi en slitastjórnin hefur viljað hafa það öðruvísi.

Það skiptir hinsvegar máli hvernig svona yfirlýsing er orðuð, vegna þess að málinu var hent út úr dómstólum í New York því það var talið óeðlilegt varnarþing marga skjólstæðinganna, t.d. Hannesar Smárasonar, Jóns Sigurðssonar og Lárusar Welding. Þeir höfðu þar engin tengsl. Þú vilt ekki fella menn persónulega undir lögsögu í New York.

Þess vegna gengur yfirlýsingin út á það að samþykkja lögsögn á Íslandi og að sá dómur yrði aðfarahæfur í New York,“ segir Sigurður og bætir við að hún snúist ekki um neitt meira. Slitastjórn Glitnis vilji hinsvegar ekki sætta sig við það og vilji hafa túlkun víðari. „Hún vill hafa þetta öðruvísi og því þarf að fara varlega í hvernig svona yfirlýsing er skrifuð. Það er síðan væntanlega dómarans að ákveða hvort hún sé í samræmi við hans ákvörðun eða ekki.“