Sigurður Gísli Karlsson hefur verið ráðinn sem stjórnendaráðgjafi til Opinna kerfa. Sigurður Gísli mun sinna uppbyggingu stjórnendaráðgjafar hjá félaginu en vægi hennar eykst stöðugt þar sem fyrirtæki sækjast eftir í auknu mæli að samþætta upplýsingatækni við alla þætti reksturs fyrirtækis til að skapa aukin verðmæti í síbreytilegu samkeppnisumhverfi. Markmiðið með stjórnendaráðgjöf Opinna kerfa er að styðja við starfsemi fyrirtækja, þróun og nýsköpun með innleiðingu á lausnum og upplýsingakerfum til að efla samkeppnishæfni þeirra. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Sigurður Gísli hefur fjölbreytta reynslu af ráðgjafastörfum, nýsköpun, framleiðslu og vöruþróun. Áður en Sigurður hóf störf hjá Opnum kerfum var hann yfirmaður vélahönnunar hjá Völku og þar áður starfaði hann sem verkfræðingur í þróunardeild Össurar á árununum 2007-2015. Sigurður starfaði einnig hjá Heklu hf., Brimborg hf. og Glostrup Truck Service A/S í Danmörku. Sigurður Gísli er með MBA frá Copenhagen Business School, MS og BS í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands, einnig stundaði hann skiptinám við University of Aukland í meistaranámi í vélaverkfræði.

„Viðskipta- og rekstrarumhverfi fyrirtækja og stofnana er að breytast hratt í takt við tækniframfarir, væntingar og þarfir neytenda. Auk stafrænna lausna þurfa fyrirtæki ráðgjöf og stuðning til að nýta þessa nýju tækni til uppbyggingar á sinni starfsemi til þess að geta fylgt eftir þessum hröðu breytingum á markaði. Þannig vinnum við með fyrirtækjum að greina tækifæri á markaði til efla viðskiptmódel þeirra. Fyrirtæki og stofnanir þurfa jafnframt aukinn stuðning er viðkemur öryggismálum en kostnaður vegna tölvuglæpa eykst hratt, það þarf að gera ráð fyrir því í  áhættustýringu þeirra. Sem sagt flækjustigið í rekstrarumhverfi fyrirtækja er að aukast verulega og við hjá Opnum kerfum erum að bregðast við þessari þróun með því að efla ráðgjöfina í samstarfi við hóp alþjóðlegra samstarfaðila," segir Sigurður Gísli.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Sigurð Gísla til að byggja upp ráðgjafateymi Opinna kerfa. Ráðgjafahlutinn hefur verið að stækka hratt til að mæta aukinni eftirspurn eftir ráðgjöf hvað varðar greiningu og þarfir fyrirtækja varðandi rekstur upplýsingakerfa og annarra hugbúnaðarlausna. Kostnaður við rekstur upplýsingakerfa og nýtingu stafrænna lausna er sífellt að aukast, því skiptir sköpum fyrir fyrirtæki og stofnanir að ná hámarksarðsemi úr kerfum og vélbúnaði, jafnframt þurfa áætlanir í þessum efnum að vera markvissar og raunhæfar," segir Sigurgísli Melberg framkvæmdastjóri hjá Opnum kerfum.