Fjármálaeftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sigurður Harðarson sé hæfur til að fara með virkan eignarhlut allt að 33% í verðbréfafyrirtækinu Capacent Fjárfestingarráðgjöf hf., sem áður hét Capacent Glacier. Sigurður var ráðinn forstjóri fyrirtækisins í mars 2010 þegar hann, ásamt Capacent á Íslandi og hópi annarra starfsmanna Capacent Fjárfestingarráðgjafar, keypti alla hluti í fyrirtækinu.

Við þær breytingar gekk alþjóðlegi hluti fyrirtækisins inn í Glacier í New York en Capacent fjárfestingarráðgjöf ætlaði þess í stað að leggja aukna áherslu á íslenska markaðinn. Þó átti að vera áframhaldandi samstarf um alþjóðleg verkefni við Glacier.