„Ég hafna því alfarið að störf mín þar hafi orkað tvímælis. Því fagna ég því ef gerð verður úttekt á rekstri hjúkrunarheimilisins,“ segir Sigurður Helgi Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eirar. DV greinir frá því í dag Sigurður hafi keypt gjafabréf frá Icelandair upp á 200 þúsund krónur í janúar í fyrra með kreditkorti hjúkrunarheimilisins. Gjafakortið gaf Sigurður dóttur sinni og fór hún með manni sínum, sem er lögfræðingur, og börnum til Spánar í ágúst í fyrra. Sigurður hætti sem framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins í maí á síðasta ári.

Á reikninginn frá Icelandair skrifaði Sigurður skv. DV: „Lögfræðikostnaður færist á þróunarsjóð SHG. DV hefur jafnframt eftir Magnúsi L. Sveinssyni, stjórnarformanni Eirar, að enginn reikningur hafi komið frá lögfræðingi. Málið er nú komið í rannsókn hjá Ríkisendurskoðanda.

Rekstur hjúkrunarheimilisins er í járnum og er unnið að því að koma í veg fyrir að reksturinn fari í þrot. Hjúkrunarheimilið skuldar um átta milljarða króna, Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum sex milljarða og íbúum hjúkrunarheimilisins tvo. Málið hefur komið til kasta fjárlaganefndar Alþingis og hefur formaður nefndarinnar tekið sæti í samráðshópi sem á að leysa úr vanda hjúkrunarheimilisins. Viihjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði af sér á dögunum sem formaður stjórnar Eirar vegna málsins.

Í yfirlýsingu sem Sigurður sendi fjölmiðlum í tengslum við umfjöllun DV segist hann fagna úttektinni: „Hún mun væntanlega leiða í ljós hvort eitthvað hafi verið athugavert við störf mín sem framkvæmdastjóri eða við störf stjórnar heimilisins á þessum tíma.“