Sigurður VE 15 er nýjasta skip Ísfélags Vestmannaeyja. Skipinu var gefið nafn í Celiktrans skipasmíðamiðstöðinni í Istanbul í dag og verður tilbúið til veiða á næstu dögum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Ísfélagi Vestmannaeyja.

Sigurður VE er 80 metra langt og 17 metra breitt skip og er afar vel búið til veiða á uppsjávarfiski, ss. loðnu, síld, makríl og kolmuna.

Fram kemur í tilkynningunni að kaupin séu liður í endurnýjun skipaflota Ísfélagsins og þáttur í hagræðingaraðgerðum þess, ekki síst í kjölfar aukinnar skattlagningar stjórnvalda. Ísfélagið þurfi að greiða um einn og hálfan milljarð í veiðigjöld og tekjuskatt á þessu ári og því sé nauðsynlegt að fækka skipum í hagræðingarskyni. Ráðgert er að Sigurður VE muni leysa tvö af eldri skipum Ísfélagsins af hólmi.