Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, tilkynnti í beinni útsendingu í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld að hann ætli að bjóða sig fram til formanns á flokksþingi Framsóknarflokksins.

Flokksþingið verður haldið í Háskólabíói helgina 1. til 2. október. Þessi tilkynning Sigurðar Inga kemur í framhaldi af löngum þingflokksfundi Framsóknarflokksins í dag.

Sigurður Ingi sagðist í samtali við Ríkisútvarpið hafa þurft að fara snemma af fundinum til að mæta á ráðstefnu fyrir norðan. Hann sagði að margir hefðu skorað á hann til að bjóða sig fram. Ólga væri á meðal flokksmanna um forystu flokksins og að best væri að leysa úr henni með lýðræðislegum hætti. Þess vegna hefði hann ákveðið að bjóða sig fram.