Það er engra hagur að fá vænar tekjur af einni atvinnugrein í afmarkaðan tíma leiði það til þess að rekstrarskilyrði greinarinnar verði óbærileg og óhagræði valdi því að greinin verði ekki starfhæf á hagkvæman máta til framtíðar.

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í pistli á vef sínum sem birtur var í gærkvöldi þar sem hann fjallar um háværar umræður um veiðigjöld sem staðið hafa síðustu daga. Tæplega 30 þúsund manns hafa sett nafn sitt á undirskriftalista þar sem Alþingi er hvatt til þess að hafna frumvarpinu.

Sigurður Ingi segir að um mikið hagsmunamál sé að ræða og því vilji hann koma á framfæri nokkrum staðreyndum sem ætlað er að skýra það ferli sem nú sé í gangi og tilurð þess frumvarps sem liggur fyrir Alþingi.

Sigurður Ingi segir í pistli sínum að ekki standi til að afnema veiðigjöld. Það frumvarp sem nú liggi fyrir á Alþingi sé einskiptis aðgerð sem þurfi að lögfesta til að hægt sé að innheimta viðbót við almenna veiðigjaldið.

„Til lengri tíma og þeirrar vinnu sem okkar bíður í framhaldinu þarf gjaldtakan að grundvallast á sanngjörnum hluta af afrakstri auðlindarinnar, sameign þjóðarinnar, án þess þó að vega á neikvæðan hátt að rekstri sjávarútvegsfyrirtækja,“ segir Sigurður Ingi.

Þá segir Sigurður Ingi að gert hafi verið ráð fyrir mjög óhóflegri gjaldtöku af sjávarútvegnum næstu árin sem að allt bendir til að vegið hefði mjög að rekstrarhæfni greinarinnar.

„Kæmi til þess, myndum við tapa þessum mikilvæga tekjustofni,“ segir Sigurður Ingi.

„Mig langar að biðja ykkur að staldra við og íhuga þetta. Oft er talað um að pissa í skóinn sinn – Viljum við ofurálagningu í skamman tíma og enga eða mun minni til framtíðar? Eða viljum við hugsa til lengri tíma, líkt og áhersla er lögð á í stjórnarsáttmálanum, hóflegri gjaldtöku sem stuðlar að tekjum af afrakstri auðlindarinnar til lengri tíma?“

Sjá pistil Sigurðar Inga í heild sinni.