Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur tekið ákvörðun um heildarafla fyrir tiltekna nytjastofna fiskveiðiárið 2015-2016 og fylgir hann tillögum Hafrannsóknarstofnunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Aflamark þorsks verður 239 þúsund tonn sem er hækkun um 21 þúsund tonn frá ráðgjöf fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Aflamark ýsu verður 36,4 þúsund tonn sem er 6 þúsund tonna aukning frá yfirstandandi fiskveiðiári. Heildarafli í makríl verður 173 þúsund tonn og hlutfallsleg skipting hans á milli flokka er með sama hætti og í fyrra, en enn á eftir að ákveða aflamark í stórum uppsjávartegundum.

Fram kemur að versnandi horfur séu í keilu, löngu, blálöngu, skötusel, langlúru, humri og fleiri tegundum sem að mestu halda sig í hlýjum sjó við suður- og vesturströndina.

Segir í tilkynningunni að verðmætaaukning vegna aukins heildarútflutnings sjávarafurða vegna aflaaukningar gæti alls numið 7-8 milljörðum króna, haldist afurðaverð svipað því sem af er ári.

Nánar má lesa um ákvörðunina hér.