Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur svarað fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur um utanlandsferðir. Katrín spurði hversu margar utanlandsferðir ráðherra hefði farið það sem af væri kjörtímabilinu.

Í svari ráðherrans kemur fram að Sigrún Magnúsdóttir hafi enn sem komið er ekki farið neina utanlandsferð frá því að hún tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra þann 31. desember síðastliðinn.

Sigurðurm Ingi Jóhannsson, sem gegndi áður embættinu, fór hins vegar í þrjár ferðir á starfstíma sínum þar. Fyrstu ferðina fór hann í okóber 2013 þegar hann hélt á fund í norrænu ráðherranefndinni um umhverfismál í Ósló og kostaði ferðin rúmar 670 þúsund krónur.

Önnur ferð hans var öllu lengri, en þá fór hann í vinnuheimsókn til Japans í febrúar árið 2014. Sú ferð stóð í níu daga þar sem þrír voru í fylgdarliði ráðherrans. Nam heildarkostnaður ferðarinnar tæpum 2,6 milljónum króna.

Loks fór Sigurður Ingi á Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi í október 2014 og stóð ferðin í þrjá daga. Tveir voru í fylgarliði ráðherrans og nam heildarkostnaður ferðarinnar rúmum 750 þúsund krónum.

Nemur heildarkostnaður ferðanna þriggja því rúmum fjórum milljónum króna.