*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 25. september 2017 08:47

Sigurður Ingi segir eftirsjá af Sigmundi

Formaður Framsóknarflokksins segir að úrsögn Sigmundar Davíðs og fleiri úr flokknum ætti ekki koma á óvart.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir slæmt að ekki hafi gróið um heilt milli sín og Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar fyrrverandi formanns flokksins, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur Sigmundur Davíð ákveðið að segja sig úr flokknum, og hafa fleiri fylgt í kjölfar hans síðan.

„Það er alltaf eftirsjá af fólki sem kýs að yfirgefa flokkinn og hefur unnið honum gott brautargengi. Það ætti hins vegar ekki að koma á óvart eftir þá atburðarás sem hefur átt sér stað sl ár,“ segir Sigurður Ingi á facebook síðu sinni. „Framsóknarfólk hefur á undanförnum árum unnið saman að brýnum hagsmunamálum þjóðarinnar og náð árangri - fyrir það vil ég þakka og vona að svo verði áfram.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins harmar einnig brotthvarfið. „Ég studdi hann til formennsku árið 2009 og hafa leiðir okkar legið saman í efnahagsmálum,“ segir Lilja í Fréttablaðinu. „Við höfum unnið að úrlausn stórra efnahagsmála eins og almennu skuldaleiðréttingunni og losun fjármagnshafta. Báðar þessar efnahagsaðgerðir voru farsælar og rufu ákveðna kyrrstöðu.“

Sigmundur Davíð er ekki sá eini sem hefur sagt sig úr flokknum síðan hann tilkynnti um úrsögnia, má þar nefna Ragnar Stefán Rögnvaldsson formann ungra Framsóknarmanna í Reykjavík sem gekk í flokkinn árið 2009. „Gömlu valdaklíkurnar höfðu tapað yfirráðum í flokknum,“ segir Ragnar sem segir þær hafa vaknað upp við vondan draum þegar þær misstu tökin á flokknum.

„Voru því bakherbergin til sjávar og sveita fyllt af reyk og í flýti hafist handa við að endurheimta Framsóknarflokkinn til gömlu valdamannanna og flokksgæðinga.“