Ein ástæða þess að meirihluti Samgöngunefndar alþingis og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra leggja nú til breytingar á samgönguáætlun frá í haust með upptöku veggjalda er vegna loftlagsmarkmiða ríkisstjórnarinnar.

Segir Sigurður Ingi ástæðuna fyrir því að tillögurnar komi fram nú sem breytingartillaga en ekki sem hluti af áætluninni þegar hún var lögð fram strax í vor hafi verið að nokkrir starfshópar hafi verið að störfum að því er RÚV greinir frá.

„Við orðuðum þetta í samgönguáætluninni, að þetta gæti orðið niðurstaðan, til að mynda tillögurnar er varða innanlandsflugið, tillögurnar er varða framkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu, sem og þessi hópur, sem reyndar skilar ekki endanlega af sér fyrr en í janúar um breytta gjaldtöku, bæði til skamms tíma, er varðar flýtingu verkefna, og hins vegar til breyttrar gjaldtöku í vegakerfinu til lengri tíma. Nú er tækifærið," segir Sigurður Ingi sem segir að loksins sé kominn tími á stóra stökkið í umferðaröryggismálum, en hann vísar einnig í orkuskipti vegna aukins fjölda rafbíla.

„Í auknum framkvæmdum í vegakerfinu, í flýtingu verkefna, og það sem hefur kannski legið þar til grundvallar er annars vegar loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar um orkuskipti sem gerir það að verkum að tekjurnar eru að hverfa og þess vegna þurfum við að fara í breytta gjaldtöku, sem og tímamótasamkomulag við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bæði er varðar almenningssamgöngur sem og uppbyggingu samgangna. Ég held að tækifærið sé núna og fyrir nefndina þá hef ég heyrt að allir gestir sem þangað komu voru hlynntir því að fara þessa leið og ég held það sé núna tækifæri fyrir þetta stóra stökk."

Leið til að flýta framkvæmdum strax á næsta ári

Jón Gunnarsson starfandi formaður samgöngunefndar segir breytingartillögurnar snúast um að tekin verði ákvörðun um að flýta framkvæmdahraðanum á næstu árum á grundvelli gjaldtöku. Þegar hann var sjálfur ráðherra samgöngumála ræddi Viðskiptablaðið ítarlega við hann um hugmyndir um gjaldtöku til að flýta framkvæmdum .

„Almennt hefur þjóðfélagsumræðan breyst mjög mikið, fólk áttar sig á því að þetta gríðarstóra verkefni sem fyrir framan okkur er verður ekki leyst nema til komi einhverjar nýjar leiðir," segir Jón sem segir í samtali við Morgunblaðið að verið sé að vinna að útfærslu tillagnanna í nefndinni.

„Ef vel tekst til við undirbúning má reikna með að þess sjái stað í framkvæmdum á seinni hluta næsta árs en að framkvæmdir verði á meiri hraða á árunum 2020 og 2021.“

Kannast ekki við andstöðu við veggjöld

Sigurður Ingi segist ekki hafa heyrt neina andstöðu við hugmyndirnar, en í viðtali við Viðskiptablaðið fyrr í haust útfærði hann þær þannig að þær næðu einungis til framkvæmda þar sem væri val um aðrar leiðir og nýja leiðin stytti leiðina. Þó hafði hann áður sagt ekki stafkrók um veggjöld í stjórnarsáttmála.

„Við erum búin að vinna mjög náið með umhverfis- og samgöngunefnd núna síðustu tvær, þrjár vikurnar, og ég hef ekki heyrt neinn vera andsnúinn þessum hugmyndum. Nú er bara spurningin hvort menn hafi kjark og þor í að taka þetta stóra stökk í þágu umferðaröryggis og bættra framkvæmda."