Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, vill að ríkið hafi skýra eigendastefnu á landi og jörðum. Þetta segir hann í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem að hann vísar í grein sem að Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins skrifar í Fréttablaðið . Forsætisráðherrann fyrrverandi segir nauðsynlegt að spyrna við fótum.

Í grein Lilju kemur fram að núverandi löggjöf um eignarhald aðila að landi sé ógagnsæ og heimildir og takmarkanir erlendra aðila utan EES-svæðisins í fasteignum hér á landi séu því óskýrar. Því sé að hennar mati nauðsynlegt að ráðast í heildarendurskoðun laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.

Sigurður Ingi tekur undir grein Lilju og tekur fram að þetta sé málefni sem að Framsóknarmenn hafa miklar áhyggjur af hvert stefnir. Nýverið var greint frá því að kínverskir fjárfestar hafa áhuga á því að kaupa jörð í Neðri-Dal í Biskupstungum. Ásett verð á jörðinni er 1,2 milljarðar króna og er hún 1.200 hektarar af stærð.

Muna Grímsstaði

„Menn muna Grímsstaði en þar stóð til að selja 1.3% (ef ég man rétt) af Íslandi til eins kínverja. Það var stöðvað. En svo kom EES maðurinn fra Bretlandi og keypti . Á síðustu árum hafa efnaðir einstaklingar eignast fleiri jarðir í Vopnafirði og í Fljótum. Tilgangurinn virðist vera sá að komast yfir laxveiðiréttindi. Þar bera menn stórfé á bændur til að eignast heilu dalina, firði og vatnsréttarsvæði - Bænda sem nú ströggla vegna tímabundins vanda sauðfjárræktar. Erlendir aðilar vilja gjarna eignast stórar jarðir/landsvæði. Við munum Jökulsárlón - höfum heyrt af Hjörleifshöfða,“ skrifar Sigurður Ingi.

Forsætisráðherrann fyrrverandi leggur til eftirfarandi breytingar:

1) Að breyta lögum þannig að bannið gildi jafnt um EES borgara sem og aðila utan EES og skýra reglur um undanþágur þannig að um tiltölulega lítil landsvæði væri um að ræða.

2) Hann telur að ríkisvaldið þurfi skýra eigendastefnu og vísar til þess að þetta sé mál sem Þórunn Egilsdóttir hefur þegar lagt fram á þingi. Hann segir að kaupa eigi þær jarðir sem við viljum að „þjóðin“ eigi og að selja eða leigja aðrar, til að tryggja fæðuöryggi og blómlegar byggðir.

3) Að framkvæma strax skynsamar tillögur sauðfjárbænda vegna núverandi markaðsvanda.

Að lokum skrifar Sigurður Ingi: „Þetta hangir allt saman“.