Tveir þingmenn Framsóknarflokksins höfðu strax frá upphafi lýst yfir miklum efasemdum um stjórnarmyndun með vinstriflokkunum vegna naums meirihluta. Formenn þeirra höfnuðu þrátt fyrir það hugmynd Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins um að fá Miðflokk Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar inn í stjórnarmyndunarviðræðurnar.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur Sigurður Ingi sagt að honum litist ekki á að mynda stjórn með Miðflokkinum, Flokki Fólksins og Sjálfstæðisflokknum í kjölfar þess að upp úr slitnaði í stjórnarmyndunarviðræðunum við Vinstri græna, Samfylkinguna, Pírata og Framsóknarflokkinn vegna naums meirihluta.

Þeir Willum Þór Þórsson og Ásmundur Einar Daðason lýstu yfir efasemdum sýnum um stjórnarmyndunarviðræðurnar áður en þær hófust að því er Morgunblaðið greinir frá.

Jafnframt segir blaðið Sigurð Inga Jóhannesson formann Framsóknarflokksins hafa hvatt Katrínu Jakobsdóttur formann Vinstri grænna til þess að hafa samband við Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins til að kanna áhuga hans á viðræðum við a.m.k. einhverja af flokkunum fjórum.

Þingmaður sem blaðið vitnar í segir að stjórnarmyndunin hafi staðið á veikum grunni enda hafi fljótlega komið á daginn að fulltrúar hvort tveggja Samfylkingar og Pírata hafi í raun verið reiðubúnir að gefa öll sín stefnumál upp á bátinn til að fá sæti í ríkisstjórn.

Þetta telur þingmaðurinn vera líklegt til þess að æsa upp grasrótina í flokkunum sem myndi sprengja upp stjórnina líkt og gerðist í Bjartri framtíð sem sleit fyrri stjórn og hvarf í kjölfarið af þingi. Slík skammvinn stjórn myndi skaða Framsóknarflokkinn mest allra flokka.

„Svona stjórn var einfaldlega aldrei á vetur setjandi. Það varð að breikka hana,“ segir þingmaðurinn en nafn hans er ekki getið.

„Ekki bætti þessi uppákoma Björns Levís úr skák og jók enn við efasemdir úr okkar röðum.“

Þar vísar þingmaðurinn í ummæli þingmanns Pírata um að hann myndi ekki styðja þingmál ríkisstjórnarinnar skilyrðislaust. Formaður Framsóknar hefur frá upphafi lagt áherslu á að ríkisstjórnin hefði breiðan stuðning.

„Þess vegna spurðist Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður okkar, fyrir um það í stjórnarmyndunarhópnum fyrir helgi hvort áhugi væri fyrir því í hópnum að hafa samband við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, og það kannað hvort flokkurinn vildi koma inn í viðræðurnar,“ segir þingmaðurinn.