*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 18. nóvember 2019 15:51

Sigurður og Nanna kaupa 7% í Skeljungi

Sigurður Bollason og Nanna Ásgrímsdóttir fjárfesta fyrir 1.296 milljónir króna í hlutafjár í Skeljungi.

Ritstjórn
Olíufélagið Skeljungur er rótgróið íslenskt félag en flestar bensínstöðvar félagsins eru merktar vörumerkinu Orkan.
Aðsend mynd

Tilkynning á vef Kauphallarinnar greinir frá því að félagið RES II, sem eru í eigu Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur, hafi fest kaup á ríflega 7% hlutafjár í Skeljungi. 

Samkvæmt tilkynningunni keypti RES II 20 milljónir hluta í Skeljungi þann 15. nóvember sl. auk þess að hafa gert framvirka samninga um 109 milljónir hluta. RES II jók við fjárfestingu sína í dag og festi kaup á 22 milljónum hluta í Skeljungi til viðbótar og fer því nú með samtals 151 milljónir hluti eða sem samsvarar 7,02% af heildarhlutafé félagsins og fara sömuleiðis með atkvæðisrétt í samræmi við það. 

Ef marka má hluthafalistann á heimasíðu Skeljungs þá er RES II næst stærsti hluthafinn á eftir Gildi Lífeyrissjóði sem fer með 9,2% hlut í félaginu.  

Gengi hluta í Skeljungi var skráð 8,15 krónur í lok síðustu viku og miðað við það gengi nemur fjárfesting RES II í Skeljungi 1.296 milljónum króna.

Greint var frá því á dögunum að RES II hafiði selt Róberti Wessman hlut sinn í Sýn eða samtals 21,15 milljónir hluta. Gengi bréfa Sýnar þann 11. nóvember þegar tilkynnt var um viðskiptin var 28 krónur og samkvæmt því hljóðaði salan upp á tæpar 600 milljónum króna.