Sigurður Óli Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Actavis, hefur verið ráðinn forstjóri samheitalyfjasviðs ísraelska lyfjafyrirtækisins Teva Pharmaceutical Industries. Hann tekur við starfinu um næstu mánaðamót. Sigurður var forstjóri Actavis Pharma , alþjóðlegrar sölueiningar samheita- og sérlyfja Actavis, en hætti störfum þar nýverið. Hann var jafnframt forstjóri Actavis á árunum 2008 til 2010. Hann gekk svo til liðs við Watson Pharmaceuticals árið 2010. Watson keypti Actavis á árinu 2012 og tók í kjölfarið upp nafn Actavis fyrir alþjóðlega starfsemi sína.

Fram kemur í tilkynningu að Teva er stærsta lyfjafyrirtæki í heimi á sviði samheitalyfja og tíunda stærsta lyfjafyrirtæki í heimi. Sigurður Óli sagði nýlega starfi sínu lausu sem forstjóri Actavis Pharma, sem er alþjóðleg sölueining samheita- og sérlyfja Actavis.

Teva var stofnað í Ísrael árið 1901, er með höfuðstöðvar í Jerúsalem og skráð á hlutabréfamarkaðinn í New York (NYSE).  Áætlanir gera ráð fyrir að velta fyrirtækisins á þessu ári verði um 20 milljarðar bandaríkjadala. Teva er með starfsemi í um 60 löndum og selur sérlyf, samheitalyf, lausasölulyf auk hráefna til lyfjagerðar. Sigurður verður staðsettur í starfstöð fyrirtækisins í Pensylvaníu í Bandaríkjunum.