Sigurður Óli Ólafsson hefur verið skipaður í stjórn Actavis sem er móðurfélag Actavis á Ísland. Eftir kaup Watson Pharmaceuticals á Actavis á síðasta ári og kaup Actavis á írska lyfjafyrirtækinu Warner Chilcott sem tilkynnt var um í vikunni, er Actavis með um 11 milljarða dala áætlaða veltu á þessu ári. Höfuðstöðvar nýs sameinaðs fyrirtækis eru í Írlandi en höfuðstöðvar stjórnunar verða áfram í Bandaríkjunum. 13 manns skipa nýja stjórn félagsins. Actavis plc er skráð í kauphöllina í New York (NYSE: ACT).

Sigurður Óli hóf störf hjá Watson Pharmaceuticals árið 2010 eftir sjö ára farsælan feril hjá Actavis þar sem hann gegndi lykilstöðu í uppbyggingu Actavis á tíma þar sem félagið stækkaði margfalt og komst í hóp helstu samheitalyfjafyrirtækja heims. Hann gegndi stöðu aðstoðarforstjóra Actavis á árunum 2007-2008 og forstjóra á árunum 2008-2010.

Frá sameiningu Watson Pharmaceuticals og Actavis hefur Sigurður Óli stýrt samheitalyfjasviði Actavis samstæðunnar á alþjóðavísu. Á þessum tíma hefur samheitalyfjasvið Actavis vaxið umtalsvert út um allan heim og er nú með starfsemi í yfir 60 löndum. Þá hefur aukin áhersla á rannsóknir og þróun á flóknari samheitalyfjum styrkt stöðu Actavis á alþjóðavettvangi sem eitt af lykilfyrirtækjum heims á sviði samheitalyfja.

Sigurður Óli útskrifaðist sem lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1993 og starfaði áður hjá Omega Pharma og lyfjafyrirtækinu Pfizer í Bretlandi og Bandaríkjunum.