Jórdanska lyfjafyrirtækið Hikma Pharmaceuticals hafa ráðið Sigurð Óla Ólafsson í stöðu forstjóra. Sigurður Óli hefur áður starfað sem forstjóri Actavis og forstjóri samheitalyfjasviðs Teva, móðurfélags Actavis.

Sigurður Óli mun einnig taka sæti í stjórn félagsins en Said Darwazah, fráfarandi forstjóri, mun áfram starfa sem stjórnarformaður Hikma. Í kjölfar ráðningar Sigurðar Óla hækkuðu bréf Hikma í kauphöllinni í London um 5%.

Í frétt á vef New York Times segir að ráðningin hafi átt sér stað á sama tíma mikill verðþrýstingur vegna samkeppni sé á félaginu en það hefur á undanförnu ári þurft tvisvar að lækka afkomuspár fyrir samheitalyfjahluta fyrirtæksins.

Stærstur hluti tekna Hikma kemur frá Bandaríkjunum, Mið-Austurlöndyn og Norður-Afríku en það er með starfsemi í yfir 50 löndum. Fyrirtækið rekur 29 lyfjaverksmiðjur í ellefu löndum og sjö rannsóknar- og þróunarsetur.