Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson ætlar að opna íþróttavöruverslun undir merkjum bresku verslunarinnar Sports Direct í Smáratorgi í Kópavogi í sumar. Mánuður er síðan Viðskiptablaðið greindi frá þessum áformum Sigurðar Pálma.

Fram kemur í tilkynningu um málið að verslanir Sports Direct séu 400 talsins. Þar af eru 120 verslanir undir merkjum fyrirtækisins í Belgíu, Slóveníu, Portúgal, Frakklandi og í Hollandi. Verslunin í Smáratorgi er liður í auknum umsvifum Sports Direct á Norðurlöndunum, að því er fram kemur í tilkynningu. Fyrirtækið á fjölda vörumerkja á borð við Dunlop og Karrimor.

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson.
Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson.

Mike Ashley, eigandi breska úrvalsdeildarliðsins Newcastle stofnaði Sports Direct fyrir þrjátíu árum. Hann er jafnframt stjórnarformaður íþróttavöruverslunarinnar. Hann er talinn 15. auðugasti einstaklingur Bretlands, samkvæmt samantekt bandaríska tímaritsins Forbes.

Sigurður Pálmi er sonur Ingibjargar S. Pálmadóttur, aðaleiganda 365, og fóstursonur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Í ágúst árið 2007 var uppi orðrómur um það að Jón Ásgeir væri að leggja ráðin um kaup á Newcastle ásamt Pálma Haraldssyni, fleiri fjárfestum og Alan Shearer, fyrrverandi leikmanni úrvalsdeildarliðsins. Þeim fregnum var svo vísað á bug.