Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður segist ekki geta samsvarað sér með neinum flokki í dag. „Ég var stuðningsmaður Samfylkingarinnar og þar áður var ég hallur undir Alþýðuflokkinn en fyrst og fremst er ég einhvers konar frjálslyndur miðjumaður. Ég vil að einstaklingurinn njóti frelsis og ég vil að allir búi við mannsæmandi kjör,“ segir Sigurður.

Aðspurður segir hann fylgistap Samfylkingarinnar ekki koma sér á óvart.

„Fyrir síðustu alþingiskosningar var kategórískt unnið gegn því að fólk styddi flokkinn. Það kom okkur mjög á óvart sem vorum að fá fólk til að taka þátt í prófkjörinu í Reykjavík vegna framboðslista fyrir kosningarnar 2013 að stofnanir á vegum flokksins skyldu meta atkvæði 600 manna ógild. Sumt af þessu fólki voru gamalgrónir kratar sem höfðu ekki skráð sig í Samfylkinguna per se, en voru í félögum sem höfðu aðild að Samfylkingunni. Þetta fólk var ekki að fara að tala fyrir málsstað Samfylkingarinnar, hvað þá kjósa lista flokksins. Ég held að Samfylkingin sé hægt og sígandi að ganga frá sér sjálf,“ segir Sigurður.

Sigurður er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .