„Það fer aldrei hátt í fjölmiðlum þegar dómstólar hafna málatilbúnaði sérstaks saksóknara,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, í stöðuuppfærslu á Fasbók. Þar gerir hann að umtalsefni dóm Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp í gær í máli nr. 146/2014.

Í málinu hafði sakborningurinn verið ákærður fyrir skilasvik af embætti sérstaks saksóknara. Átti hann að hafa gerst sekur um þau með því að hafa sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri fyrirtækis tekið ákvörðun um og beint þeirri ósk til viðskiptamanna félagsins að þeir myndu greiða andvirði vörureikninga inn á ákveðinn reikning félagsins. Það hafi hann gert þrátt fyrir að hann hefði áður samkvæmt handveðsyfirlýsingu og þremur tryggingarbréfum verið búinn að skuldbinda félagið til að láta greiðsluandvirði vörureikninganna renna inn á annan reikning.

Maðurinn var sakfelldur í héraði og gert að sæta fangelsi í tólf mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Hæstiréttur taldi hins vegar ákæru í málinu í veigamiklum atriðum í ósamræmi við þau gögn sem lágu fyrir við útgáfu hennar og hún hafi verið reist á. Komst hann því að þeirri niðurstöðu að vísa bæri málinu frá héraðsdómi.

Sigurður setur spurningamerki við vinnubrögð sérstaks saksóknara í málinu. „Hvaða verktaki hjá embætti sérstaks skyldi hafa unnið þessa ákæru heima hjá sér? Eða var hún barin saman af fastráðnum starfsmönnum sem hafa valið embættið sem stofnun ársins trekk í trekk?“ segir hann að lokum.

Dóm Hæstaréttar má sjá hér .