Sigurður Ragnarsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri Viðskiptafræðisviðs við Háskólann  á Bifröst í stað Sigurbjörns Einarssonar. Sigurður er með B.A. í mannauðsstjórnun og M.B.A. í stjórnun og markaðsfræðum frá Golden Gate University í San Francisco og stundar doktorsnám í leiðtogafræðum við Háskóla Íslands. Í tilkynningu frá Bifröst segir að Sigurður sé með víðtæka stjórnunarreynslu og þ.á.m. reynslu af eigin fyrirtækjarekstri.

„Sigurður var lektor á Bifröst frá 2002-2008 en hefur síðustu ár starfað við kennslu og fræðslu auk þess að sinna stjórnenda- og leiðtogaþjálfun fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir. Hann hefur kennt forystufræði og fleiri námsgreinar við Háskólann á Bifröst, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Opna háskólann og Háskólann á Akureyri. Í lok árs 2011 gaf Sigurður út bókina Forysta og samskipti – Leiðtogafræði,“ segir í tilkynningu frá Bifröst.

Sigurbjörn Einarsson mun áfram leggja stund á kennslu við skólann.