Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir að hvorki sakborningar né verjendur þeirra hafi fengið aðgang að öllum gögnum þeirra Kaupþingsmála sem flutt hafa verið tengd Kaupþingi.

„Það hefur verið nær alfarið í höndum saksóknara hvaða gögn við fáum að sjá, burtséð frá því hvað í þeim er að finna. Þetta breyttist í málinu sem síðast var flutt í Héraði, en þá fengum við loksins aðgang af tölvupósthólfi Halldórs Bjarkars Lúðvígssonar."

Sigurður segir Halldór Bjarkar hafa verið lykilvitni saksóknara í öllum málunum gegn Kaupþingsmönnunum.

„Þar mátti sjá að 3. október, aðeins nokkrum dögum fyrir hrun, selur Halldór öll hlutabréf sín í Kaupþingi. Í fyrstu lögregluskýrslu sinni segir hann að hann hafi selt bréfin vegna þess að honum hafi ekki litist á hversu mikið fé væri farið að streyma úr bankanum. Þetta eru innherjaupplýsingar sem ekki liggja fyrir á markaði. Ef þú átt viðskipti þegar þú býrð yfir slíkum upplýsingum ertu að fremja innherjasvik.

Baldur Guðlaugsson var ákærður og dæmdur fyrir að hafa átt viðskipti með bréf Landsbankans miðsumars 2008. Ef það eru innherjasvik þá eru viðskipti Halldórs Bjarkar Lúðvígsson innherjasvik. Síðar breytir hann framburði sínum og segist hafa selt eftir að greint var frá yfirtökunni á Glitni. Þarna er hann að reyna að komast hjá innherjasvikunum, því yfirtakan var jú opinberar upplýsingar.“

Ítarleg viðtöl eru við Sigurð Einarsson og Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, í tímaritinu Áramót, sem kemur út á morgun, 30. desember.