Segja má að bandaríska húsnæðislánafyrirtækið Better Mortgage hafi komið, séð og sigrað á fasteignamarkaðinum vestanhafs frá stofnun þess fyrir aðeins fjórum árum síðan.

Í dag starfa þar um 4.500 starfsmenn og útlán þess hafa fjórfaldast síðastliðið ár, og útlit er fyrir enn örari vöxt næstu misseri þökk sé lækkandi vöxtum, með tilheyrandi aðsókn í endurfjármögnun og aukinni eftirspurn eftir húsnæði.

Félagið réðst í fjórðu fjármögnunarlotu sína fyrir rétt rúmum mánuði og tryggði sér í henni 200 milljóna dala fjármögnun með sölu 5% hlutar, sem gerir 4 milljarða dala heildarverðmat. Það var auk þess í efsta sæti á topplista vinnumarkaðsmiðilsins LinkedIn yfir sprotafyrirtæki ársins í ár.

Fyrirtækið sem þá dreymdi um
Sigurgeir Jónsson, hagfræðingur og athafnamaður , kom að stofnun félagsins og vann náið með því fyrsta árið, en hann hefur nú verið ráðinn yfirmaður fjármálamarkaða (e. head of capital markets) hjá Better og hefur störf næsta mánudag.

„Þetta er fyrirtækið sem okkur dreymdi um á sínum tíma þegar við stofnuðum 1/0 Capital, að gefa fólki kost á því að fá húsnæðislán án þess að þurfa að tala við 50 manns og faxa pappíra á milli og þar fram eftir götunum,“ segir Sigurgeir, en 1/0 Capital sérhæfir sig í að stofna fyrirtæki og hrinda þeim úr vör, og Better Mortgage var upphaflega aðeins eitt margra slíkra verkefna.

Íbúðalán orðið útundan í fjártæknibyltingunni
Sigurgeir segir að þegar þróun fjártækni hafi farið á flug í Bandaríkjunum hafi áherslan mestöll verið á greiðslumiðlun og bankaupplýsingar. „Það er allt fullt af spennandi hlutum að gerast í fjármálatækni. Þú ert með PayPal, Wenmo og allt þetta í peningagreiðslunum, og svo eru þjónustur sem tengjast bankanum þínum beint og greina fyrir þig eyðslu og annað slíkt.“

„Það sem hins vegar virtist verða alveg útundan er alvöru útlánastarfsemi. Það eru komin nokkur fjártæknifyrirtæki sem veita minni persónuleg lán, en engin sem veita húsnæðislán. Sá markaður hefur verið nánast óbreyttur frá því á 9. áratugnum,“ segir hann. Tæknin sem notuð sé í ferlinu sé öll afar gömul, og ferlið enn mikið til handvirkt.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .