Sigurhjörtur Sigfússon hefur verið ráðinn fjármálastjóri Mannvits og tekur sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Sigurhjörtur er löggiltur endurskoðandi og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur víðtæka reynslu á sínu sviði.

Fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu að áður en Sigurhjörtur réðst til Mannvits var hann forstöðumaður áætlana og greininga hjá Skiptum frá árinu 2008. Hann var sérfræðingur á  fjármálasviði Straums-Burðaráss frá 2007-2008, forstöðumaður fjárstýringar Íslenskrar erfðagreiningar frá 2001 til 2007 en þar á undan var hann sérfræðingur á endurskoðunarsviði PricewatherhouseCoopers frá árinu 1996. Maki Sigurhjartar er Harpa Maren Sigurgeirsdóttir, námsráðgjafi, og eiga þau tvö börn.

Mannvit er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki sem veitir þjónustu á sviði verkfræði, stjórnunar, rekstrar og EPCM-verkefnastjórnunar og er hið stærsta sinnar tegundar hér á landi. Fyrirtækið er ásamt dóttur- og hlutdeildarfélögum með starfsemi í Bretlandi, Bandaríkjunum, Ungverjalandi, Þýskalandi, Noregi og Chile auk Íslands. Hjá Mannviti starfa yfir 400 sérfræðingar með breiðan þekkingargrunn. Fyrirtækið er í eigu starfsmanna og hluthafar eru á annað hundrað talsins.