Þrátt fyrir að Hillary Clinton hafi verið lýst sem sigurvegara í prófkjörum sem Demókrataflokkurinn hélt í fjórum ríkjum á þriðjudag er ekki með öllu ljóst í hverju sigurinn felst.

Hugsanlega felst sigurinn í því að slagur hennar við Barack Obama dragist á langinn og úrslitin ráðist ekki fyrr en endanleg afstaða fastafulltrúanna á flokksþinginu liggur fyrir. Slík atburðarrás hlýtur að teljast til afleitra tíðinda fyrir demókrata, ekki síst í ljósi þess að nú er komið á hreint að öldungadeildarþingmaðurinn John McCain verður forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins.

Þegar þetta er ekki enn ljóst hversu marga fulltrúa Clinton og Obama fengu í prófkjörunum í Texas, Ohio, Rhode Island og Vermont, en fyrrum forsetafrúin sigraði í fyrstu þremur ríkjunum. Hafi hún saxað lítillega á forskot Obama þá eru miklar líkur á því að það muni aukast þegar prófkjör fara fram í Wyoming og Mississippi næstkomandi laugardag og þriðjudag.

Eins og bent er á í blaðinu Financial Times þarf Clinton að vinna í þeim ríkjum og auk þess í þeim 14 prófkjörum sem fara fram í kjölfarið - með nánast óhugsandi mun - til þess að tryggja sér stuðning þeirra 2025 fulltrúa á flokksþinginu sem til þarf að fá útnefningu flokksins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .