*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 20. október 2014 12:34

Sigurjón: Ákæran var á sandi byggð

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans segir dóminn staðfesta að ákæran gegn honum hafi verið tilhæfulaus.

Kári Finnsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans og Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, voru sýknuð í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Voru þau ákærð fyrir umboðssvik vegna sjálfsskuldaábyrgða sem Landsbankinn gekkst í vegna hlutabréfakaupa í bankanum.

Aðspurður segist Sigurjón ánægður með dóminn. „Það kom í sjálfu sér ekkert á óvart í þessum dómi. Þetta mál var í raun og veru algjör vitleysa og algjör misskilningur af hálfu ákæruvaldsins frá upphafi að mínu mati. Þeir vildu meina það að öll þessi kaupréttarfélög hefðu verið einhvers konar markaðsmisnotkun, þegar búið var að rannsaka það í nokkur ár þá sáu þeir að það gæti ekki staðist. Þá breyttu þeir málinu þannig að það hefði verið rangt staðið að bókhaldinu. Svo þegar það hafði verið skoðað nánar komust þeir að því að það stæðist ekki heldur og þá endaði þetta sem umboðssvikaákæra sem var í mínum huga hreinn uppspuni frá rótum að hálfu ákæruvaldsins. Nú var það staðfest með dómnum,“ segir Sigurjón.

Bíður átekta

Þú bjóst þá við þessari niðurstöðu frá upphafi?

„Já, þetta mál var náttúrulega algjörlega galið,“ segir Sigurjón. „Það var greinilega búið að fjárfesta svo rosalega mikið í því að gera eitthvað mál úr þessu að þeir gátu ekki hætt við það að láta þetta kyrrt liggja og höfðu í raun engar forsendur fyrir að ákæra í þessu máli. Það var alveg augljóst frá fyrsta degi að þessi ákæra var á sandi byggð.“

Nú bíður Sigurjón þess hvort málinu verði áfrýjað til hæstarétts. „Ég vona að þeir sjái sóma sinn í því að áfrýja þessu ekki, en maður veit aldrei,“ segir Sigurjón.