„Það er alveg augljóst, eftir á að hyggja, að Bretar voru að reyna knýja fram ríkisábyrgð á starfsemi Landsbankans sem var ekki fyrir hendi," sagði Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, er hann kom fram sem vitni í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni. Baldri er gefið að sök að hafa selt hlutabréf sín í Landsbankanum að virði 192 milljóna króna á sama tíma og hann bjó yfir innherjaupplýsingum.

Sigurjón var einkum spurður út í fund sem hann sat ásamt Halldóri J. Kristjánssyni, sem var bankastjóri Landsbankans með honum, og Jónínu Lárusdóttur, þáverandi ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins, og Baldri Guðlaugssyni 13. ágúst 2008. Í ákærunni er fundurinn sérstaklega tiltekinn en á honum var m.a. rætt um kröfur breska fjármálaeftirlitsins um að færa Icesave-innlánsskuldbindingar inn í dótturfélag ásamt eignum meðfylgjandi.

"Það lá fyrir allan tímann, og var alveg ljóst frá upphafi, að það sem FSA [breska fjármálaeftirlitið] var að biðja um var ógerlegt [...] Það er ekki hægt að flytja eignir í einu lagi, strax á morgun, inn í nýtt dótturfélag til að setja á móti Innlánunum. Við vorum tilbúnir að gera þetta í skömmtum, sem hefði verið hægt án þess að brjóta ákvæði í lánasamningum. Auk þess var alltaf undirliggjandi að okkar hálfu, að lagalega voru þetta vægast sagt hæpnar kröfur og það vantaði alltaf rökstuðning [...] Það var stórundarlegt að sjálfur eftirlitsaðilinn var að búa til áhættu fyrir fjámálakerfið með þessum ógerlegu kröfum."

Sigurjón sagði að þessi fundur 13. ágúst hefði ekki haft neina þýðingu í stóra samhenginu. Menn hafi verið að skiptast á upplýsingum um samskiptin sem stóðu yfir milli Landsbankans og breska fjármálaeftirlitsins. Ekkert endanlegt hefði þá legið fyrir.

Þá var hann spurður út í kröfur breska fjármálaeftirlitsins um 5 milljarða punda hámark á innstæðum Landsbankans í Bretlandi. Sigurjón sagði að það hefði í fyrsta lagi aldrei reynt á það, þar sem Landsbankinn hefði aldrei farið yfir það mark, og svo hefði þessi krafa aldrei verið rökstudd með neinu sem hönd væri á festandi. Landsbankinn hefði uppfyllt öll skilyrði um lausafjárstýringu og ekki gert neitt rangt. Undirliggjandi, eftir á að hyggja, hefði verið það að Bretar vildu fá fram íslenska ríkisábyrgð á þessum innlánum, án þess að hafa lagaleg rök fyrir því.

Karl Axelsson hrl. lögmaður Baldurs spurði út í yfirtökuna á Glitni og sagði Sigurjón að hann hefði bundið vonir við að það yrði fyrsta aðgerðin af heildstæðri áætlun stjórnvalda til þess að bregðast við vanda bankanna. "Þetta var hættuleg aðgerð," sagði Sigurjón, en ítrekaði að það hefði vantað áætlun, "back up", eftir að ráðist var í þessa aðgerð.

Hann sagðist ekki þekkja Baldur neitt og aðeins hitt hann á fundum með embættismönnum.

Ráðgert er að málflutningur fari fram í þar næstu viku eftir að aðalmeðferð lýkur. Halldór J. Kristjánsson á enn eftir að koma fyrir dóminn sem vitni.