Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans segir ummæli Bert Heemskerk , formann bankaráðs hollenska bankans Rabobank ekki svaraverð en Heemskerk hélt því fram í ríkissjónvarpi Hollands í gærkvöldi að áreiðanleiki Landsbankans væri enginn.

Þá varaði Heemskerk Hollendinga við því að leggja fé sitt inn á Icesave reikninga Landsbankans í Hollandi og líkti Landsbankanum við tyrkneska banka en þeir eru frægir fyrir að njóta lítils traust í Hollandi.

„Það tekur því ekki að svara svona ummælum, þetta er ekki svaravert,“ segir Sigurjón í samtali við Viðskiptablaðið.

Aðspurður segir hann að svona ummæli komi ekki til með að skaða bankann og bætir því við að viðtökur við Icesave reikningunum hafi verið mjög góðar.

Hann segir að rúmlega 30 þúsund reikningar hafi verið stofnaðir frá því að Landsbankinn fór að bjóða reikningana í lok maí.

„Við erum að keppa á okkar forsendum og það gengur vel,“ segir Sigurjón.