„[É]g held að það sé þannig t.d. að Samfylkingin hafi fengið miklu meira heldur en þeir hafa sagt frá. Ég held bara að þeir vísi í einhverja eina kennitölu sem er Samfylkingin, svo er til Samfylkingin í Reykjavík og ég veit ekki hvað þetta allt heitir [...]“ er haft eftir Sigurjóni Árnasyni fyrrverandi bankastjóra Landsbankans í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Tilefnið var spurningar um styrki Landsbankans til stjórnmálasamtaka, meðal annars Sjálfstæðisflokksins um 25 milljónir króna. Sigurjón sagði að ef einhver annar flokkur hefði beðið um slíkan styrk hefði hann „bara gefið þeim líka".

„Síðan bara segja þeir frá því með mismunandi hætti af því að sumir biðja um þetta á margar kennitölur og aðrir fá þetta á eina kennitölu og eitthvað svona," segir Sigurjón.

Uppfært 15:09

Í yfirliti sem Samfylkingin birti yfir styrki lögaðila í apríl 2009 var tekið fram að upplýsingar um framlög til einstakra félaga eða kjördæmisráða væru ekki inn í þeim tölum. Þess vegna var samanburður við upplýsingar um styrki í rannsóknarskýrslu ekki réttur.  Ef skoðað er yfirlit sem Samfylkingin skilaði inn til ríkisendurskoðunar í desember 2009 sést að þær tölur eru í samræmi við tölur um styrki til Samfylkingarinnar frá bönkunum í rannsóknarskýrslu Alþingis.