Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, er einn þeirra sjö sem sérstakur saksóknari yfirheyrir í tengslum við rannsókn á málum tengdum bankanum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þrjár húsleitir fóru fram í dag.

Sömu heimildir herma að Halldór J. Kristjánsson, hinn bankastjóri Landsbankans fyrir hrun, sé ekki einn þeirra sem Embætti sérstaks saksóknara yfirheyrir.

Viðbót kl 17:00:

Feðgarnir Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson eru ekki meðal þeirra sem eru yfirheyrðir, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Elín Sigfúsdóttir, sem tók við starfi bankastjóra Landsbankans eftir hrun og þar til í byrjun árs 2009, er einnig meðal þeirra sjö sem sérstakur saksóknari yfirheyrir, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.