Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur til að greiða slitabúi Landsbankans rúmar 35 milljónir króna vegna greiðslu sem bankinn lagði í séreignalífeyrissparnað Sigurjóns þann 2. október 2008. RÚV greinir frá þessu.

Slitastjórnin höfðaði mál til riftunar greiðslunni síðla árs 2011. Í frétt RÚV segir að í dómsuppsögu í héraðsdómi hafi komið fram að Sigurjón þyrfti að greiða Landsbankanum til baka 35.145.000 krónur auk dráttarvaxta frá 30. september 2011 til greiðsludags, en hann þarf einnig að greiða Landsbankanum málskostnað að fjárhæð 980 þúsund króna.