„Niðurstaða Icesave dómsins í dag er í samræmi við það sem við höfum áður sagt, í fyrsta lagi að það væri ekki ríkisábyrgð á Icesave reikningunum og í öðru lagi að eignir Landsbankans myndu duga fyrir greiðslum bankans til kröfuhafa.“

Þetta segir Sigurjón Þ. Árnason, fv. bankastjóri Landsbankans, í samtali við Viðskiptablaðið, aðspurður um niðurstöðu Icesave dómsins sem féll í morgun.

Sigurjón ítrekar að allar samningaviðræður við Breta og Hollendinga vegna ríkisábyrgðar á innlánasafni Landsbankans hafi verið á misskilningi byggðar.

„Þarna voru stórar þjóðir að reyna að bera litla þjóð ofurefli og það tókst næstum því,“ segir Sigurjón.

„Ef Ólafs Ragnars Grímssonar hefði ekki notið við hefðu Íslendingar aldrei fengið að segja sína skoðun á málinu og það farið í þennan farveg heldur endað afar illa. Við Íslendingar eigum honum mikið að þakka.“

Þá segir Sigurjón að gífurlegt magn af peningum hafi tapast við það þegar bankinn var tekinn yfir af íslenskum stjórnvöldum í október 2008.

„Nú stefnir í að andvirði eignarsafns Landsbankans verði um 200 milljörðum króna umfram skuldbindingar bankans vegna Icesave reikninganna. Það er það sem við höfum alltaf sagt enda voru menn að vanmeta eignirnar í upphafi,“ segir Sigurjón.

„Það tekur hins vegar tíma að kalla inn eignirnar og umbreyta þeim í lausafé en það á við um öll þrotabú. Það sem er mikilvægast í þessu er að muna að það var engin ríkisábyrgð á þessum innstæðum eins og við höfum alltaf haldið fram.“