Fasteignafélagið Heimilskaup, sem er í eigu Sigurjóns Sighvatssonar fjárfestis og fjölskyldu hans, hefur samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins bætt við sig fleiri fasteignum í Danmörku. Þetta kemur fram í frétt í blaðinu í dag. Fyrir skömmu var gengið frá kaupum Heimilskaupa á fasteignafélaginu Kareen A/S sem á 150 íbúðir við Nörrebro í miðborg Kaupmannahafnar og nú hefur verið skrifað undir samning um kaup á öðru félagi á sama svæði.

Kareen A/S átti verslunar- og skrifstofuhúsnæði auk íbúðanna og voru þau kaup upp á um átta milljarða íslenskra króna en það var Íslandsbanki sem aðstoðaði við kaupin. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru kaupin á nýja félaginu upp á 2,5 milljarða króna og er það Landsbankinn sem aðstoðaði við kaupin. Í því félagi sem nú hefur verið keypt eru um 50 íbúðir. Auk fasteignanna í Danmörku eiga Heimilskaup atvinnu- og skrifstofuhúsnæði á Íslandi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort félögin verði sameinuð.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.