Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, var rétt í þessu úrskurðaður í gæsluvarðhald til 25. janúar 2010. Rannsókn sérstaks saksóknara snýst um meinta markaðsmisnotkun Landsbankans á árunum 2003 til 2008.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, ræddi við fjölmiðlamenn eftir að úrskurðurinn lá fyrir. Hann sagði að rannsókn sérstaks saksóknara snéri að markaðsmisnotkun innan Landsbankans á árunum 2003-2008. Meðal annars væri verið að rannsaka félög sem héldu utan um kauprétti starfsmanna bankans, en Sigurður sagði að Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefði teiknað upp þann strúktúr þegar hann starfaði hjá Landsbankanum á árum áður.

Sigurður sagði auk þess að Sigurjón hefði verið yfirheyrður áður vegna þessa máls. „Þetta er náttúrulega mjög sérstakt vegna þess að hann var yfirheyrður af sama embætti í júlí 2009 fyrir hluta af þeim málum sem hann er yfirheyrður fyrir í dag. Síðan höfum við ekki heyrt frá embættinu fyrr en í gær.“

Sigurður sagði að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hlyti að stafa af áhyggjum sérstaks saksóknara af því að Sigurjón gæti haft áhrif á vitni í málinu. „Ef það væri áhugi frá honum að hafa áhrif á vitni þá væri það löngu búið að gerast.“

Sigurður sagði að niðurstöðu Héraðsdóms hefði verið áfrýjað til Hæstaréttar.  Hann vonast til þess að Hæstiréttur snúi ákvörðuninni við.

Sigurður staðfesti einnig að kaup Ímon, félags í eigu Magnúsar Ármann, á hlutabréfum í Landsbankanum rétt fyrir hrun væri hluti af rannsókn sérstaks saksóknara á meintri markaðsmisnotkun Landsbankans. Þær upplýsingar höfðu ekki komið fram áður.