Sigurjón Árnason og Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi stjórnendur Landsbanka Íslands hafa verið ákærð fyrir umboðssvik. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í febrúar.

Fréttastofa RÚV greindi frá því í gær að málið snerist um að þau Elín og Sigurjón hafi gerst sek um umboðssvik með því að heimila að Landsbanki Íslands gengist í ábyrgð fyrir aflandsfélag sem var í eigu bankans.

Upphaflega sneri rannsóknin að fleiri aflandsfélögum en Fjármálaeftirlitið kærði meinta umboðssvik Sigurjóns og Elínar til sérstaks saksóknara. Var kæran meðal annars grundvöllur gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir Sigurjóni í janúar 2011.

Þetta er önnur ákæran sem gefin er út á hendur þeim Sigurjóni og Elínu en fyrir um tíu mánuðum var gefin út ákæra á hendur sex fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans vegna markaðsmisnotkunar. Það mál er enn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.