Endurskoðandinn Sigurjón G. Geirsson hefur verið ráðinn forstöðumaður áhættugreiningar hjá Fjármálaeftirlitinu. Staðan var auglýst til umsóknar þann 7. desember síðastliðinn og var öðrum umsækjendum greint frá því um miðjan mars að Sigurjón hafi verið ráðinn.

Sigurjón var áður yfir innri endurskoðun gamla Landsbankans. Eftir að skilanefnd tók yfir lyklavöldin í bankanum var Sigurjón einn þeirra fimm sem sátu í upphaflegu skilanefndinni. Fjármálaeftirlitið vék honum hins vegar frá störfum undir lok sumars 2009. Skilanefndin réð hann þá aftur sem ráðgjafa.

Sigurjón vann hjá gamla Landsbankanum og var m.a. innri endurskoðandi hans. Áður en hann var ráðinn í stöðuna árið 2003 hafði hann verið í um tvö ár framkvæmdstjóri upplýsingatæknisviðs bankans. Þar áður hafði hann verið í fimm ár endurskoðandi hjá PwC í Ósló í Noregi og deildarstjóri hjá bankaeftirliti Seðlabankans. Frá árinu 2010 hefur Sigurjón starfað sem yfirmaður á ráðgjafasviði Ernst & Young í Ósló. Samhliða því hefur hann verið sviðsstjóri ráðgjafasviðs Ernst & Young á Íslandi.

Í auglýsingu FME segir að starf forstöðumanns feli í sér umsjón með einingu sem hafi það hlutverk að greina helstu áhættuþætti í starfsemi eftirlitsskyldra aðila og eigi það að leggja fram tillögur um stefnumótandi aðgerðir er varða stýringu áhættu.