*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Fólk 9. apríl 2021 14:01

Sigurjón stýrir SFV

Sigurjón Norberg Kjærnested tekur við af Eybjörgu Hauksdóttur sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Ritstjórn
Sigurjón Norberg Kjærnested
Aðsend mynd

Sigurjón Norberg Kjærnested hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Hann hefur störf hjá SFV í byrjun júní næstkomandi. Sigurjón tekur við af Eybjörgu Hauksdóttur, sem ráðin hefur verið sem framkvæmdastjóri hjá Eir.

Sigurjón er verkfræðingur sem kemur til SFV eftir níu ár hjá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, þar sem hann var forstöðumaður og staðgengill framkvæmdastjóra. Þá var Sigurjón áður formaður innflytjendaráðs í Velferðarráðuneytinu og varaþingmaður. 

„Það er mikill heiður að fá tækifæri til að leiða SFV. Það er ekki ofsögum sagt að nú séu algerir lykiltímar fyrir fyrirtæki í velferðarþjónustu. Þrengt er að rekstri fyrirtækjanna á ýmsan hátt, á sama tíma og þarfir skjólstæðinga þeirra hafa aukist. Við slíkar aðstæður gegna samtökin lykilhlutverki. Ég hlakka því til að vinna með stjórn samtakanna að úrbótum á starfsumhverfi fyrirtækja í velferðarþjónustu,“ er haft eftir Sigurjóni í fréttatilkynningu.  

„Framundan eru mörg mikilvæg og krefjandi verkefni og ég er þess fullviss að Sigurjón mun reynast okkur góður liðsstyrkur í þeim öllum. Hann hefur reynslu af svipuðum verkefnum í fyrra starfi og kemur eflaust með gagnlega hluti í væntanlegri baráttu okkar góðu samtaka fyrir bættri velferð þeirra sem njóta velferðarþjónustu hér á landi,“ segir Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður SFV. 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa við velferðarþjónustu og eru sjálfseignarstofnanir, í eigu félagasamtaka, einkaaðila eða opinberra aðila. Mörg aðildarfélaganna eru öldrunarstofnanir, en einnig fyrirtæki með aðra starfsemi eins og dagþjálfun, áfengismeðferð, endurhæfingu og fleira.