Sigurjón Þ. Árnason, annar tveggja forstjóra Landsbankans, sagði á fundi með fulltrúum frá PwC, 7. desember 2007, að hann væri undir þrýstingi frá eigendum bankans að samþykkja lán til þeirra. Hann lét fylgja með að þessi þrýstingur hefði engin áhrif á bankann, að því er segir í skýrslu norsku sérfræðinganna.

Sérfræðingarnir vitna sérstaklega til þess að tekið hafi verið fram í gögnum sem fundust hjá PwC, að engar grunsemdir væru uppi  „sem PwC hefði orðið vart við“ um að eigendur bankans væru að reyna beita þrýstingi til að fá lán til fyrirtækja sinna og félaga. Á fundi sem haldinn var skömmu fyrir birtingu ársreiknings fyrir árið 2007, sem var 28. janúar, kemur fram að Sigurjón og Elín Sigfúsdóttir, sem þá var yfirmaður fyrirtækjasviðs bankans, hafi rætt mikið um „ótrúlegar“ aðstæður á markaði.

Einar Harðarson, forstöðumaður útlánaáhættu á fyrirtækjasviði Landsbankans, lýsti yfir miklum áhyggjum af ástandinu og sagði lán miklu ótryggari en áður. Einar sagði síðan á fundi 23. janúar með PwC að staðan væri erfið og slæm og að niðurfærslur á lánum væru óhjákvæmilegar.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .