Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Já Íslands frá og með 15. ágúst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Sigurlaug Anna lauk B.A gráðu í stjórnmálafræði árið 2008 en áður stundaði hún nám í iðnrekstrarfræði við Tækniháskóla Íslands.

Hún starfaði sem verkefnisstjóri rannsóknar á íbúalýðræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands árin 2008-2011 ásamt því að stunda meistaranám við sömu deild í opinberri stjórnsýslu.

Í tilkynningunni kemur fram að Sigurlaug Anna hefur tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins, einkum á sviði sveitarstjórnarmála. Hún er varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði, situr í fræðsluráði Hafnarfjarðar, er varaformaður stjórnar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði, sat í stjórn Sjálfstæðisfélagsins Fram í Hafnarfirði frá 2007 – 2011, þar af sem formaður í 2 ár. Enn fremur hefur hún átt sæti í stjórn málefnanefndar Sjálfstæðisflokksins um innanríkismál.

Sigurlaug hefur setið í Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar og í stjórn starfsmenntasjóðs Starfsmannafélags Hafnarfjarðar. Hún situr núna í stjórn félags stjórnmálafræðinga. Hún sat í stjórn og framkvæmdastjórn samtakanna Heimili og skóli – landssamtök foreldra, á árunum 2009-2010, auk þess sem hún var framkvæmdastjóri samtakanna um tíma.

Sigurlaug Anna hefur áður setið í stjórn Já Íslands.